Section
Segment

Með vaxandi eftirspurn eftir raforku hefur opnast tækifæri fyrir Ísland til að auka fjölbreytileika í raforkuöflun landsins með þeirri nýju tegund orkugjafa sem vindurinn er. Landsvirkjun hefur undanfarin ár kannað möguleika á virkjun vindorku hér á landi. Athyglin hefur sérstaklega beinst að landsvæðinu milli Búrfells og Sultartanga.

Section
Segment

Aukin orkuþörf

Landsvirkjun er leiðandi í sjálfbærri nýtingu orkugjafa og vill stuðla að aukinni þekkingu, tækniþróun og nýsköpun. Á heimsvísu er þróun sjálfbærra orkukosta hvergi örari en í uppbyggingu vindorku. Þar hafa gríðarlegar framfarir orðið á stuttum tíma og á sama tíma hefur fjárfestingar- og rekstrarkostnaður lækkað töluvert. Mikil samlegðaráhrif eru með vindorku og vatnsorku. Vatnsaflið er öruggur og stöðugur orkukostur, en með vindorkunni skapast tækifæri til að stýra orkuvinnslunni meira í vatnsaflsvirkjunum, að draga úr henni og safna vatni í uppistöðulónin þegar vindurinn blæs, en auka svo framleiðsluna þegar vindorkan dvínar. Í fyrirhuguðum Búrfellslundi er þetta samspil einstaklega gott og þannig skapast þær aðstæður að nýting vindorku í Búrfellslundi er ekki aðeins raunhæfur kostur hér á landi heldur einnig hagkvæmur.

Aukin orkuöflun Landsvirkjunar er ávallt háð rannsóknum, þróun og leyfisveitingum og kann það undirbúningsferli að vera tímafrekt. Af þessum sökum er eðlilegt að Landsvirkjun skoði sérstaklega að þróa nýja orkukosti. Í því samhengi er vindurinn sérstaklega áhugaverður kostur til að jafna sveiflur á framboði eftir árstímum.

Með gerð Búrfellslundar hyggst Landsvirkjun mæta vaxandi orkuþörf í landinu, jafnt til almennra nota sem iðnaðar. Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Vindmyllur virðast vera vel til þess fallnar að uppfylla þessi skilyrði þar sem rekstur rannsóknarvindmyllanna hefur gengið vel og með aflmeiri og stærri vindmyllum er talið að auka megi nýtnihlutfallið enn frekar.

Einnig er horft til þess að framkvæmdatími við uppsetningu vindmylla er umtalsvert styttri en við vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir, auðvelt er að byggja vindlund upp eftir því hvers markaðurinn krefst hverju sinni og umhverfisáhrif eru að mestu afturkræf.

Section
Segment

Vindorkugeta

Í desember 2012 reisti Landsvirkjun tvær rannsóknarvindmylllur á Hafinu. Reksturinn hefur gengið vonum framar og gefur mikilvægar upplýsingar um nýtingartíma og hvernig er að reka vindmyllur við íslenskar aðstæður. Frá upphafi árs 2014 hefur vindur verið mældur af meiri nákvæmni en áður. Mælingarnar eru umtalsvert umfangsmeiri en fyrri mælingar og staðfesta vindorkugetu af enn meiri nákvæmni. Mæligögn eru notuð til að greina ítarlega m.a. vindhraða, vindstefnu og ísingaráhrif á svæðinu.

Nýtnihlutfall rannsóknarvindmyllanna tveggja er að meðaltali yfir 40% og frumreikningar á orkugetu Búrfellslundar gefa til kynna að nýtnihlutfall hans gæti orðið að meðaltali um 50%. Rannsóknir staðfesta því að vindur er bæði mikill og stöðugur innan alls framkvæmdasvæðisins.

Section
Section
Segment

Tillögur

Settar eru fram þrjár tillögur fyrir afmörkun Búrfellslundar. Tillögurnar eru eftirfarandi:

Tillaga 1:


Alls um 34 km2 svæði í Rangárþingi ytra.

Tillaga 2: 


Alls um 40 km2 svæði í Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Tillaga 3: 


Alls um 33 km2 svæði í Rangárþingi ytra og er staðsett innan marka tillögu 1 og 2. 


Til stendur að reisa 200 MW vindlund, Búrfellslund á hraun- og sandsléttunni austan Þjórsár og á Hafinu, þar sem Landsvirkjun rekur nú þegar tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Reiknað er með að hámarkshæð þegar spaðar eru í efstu stöðu sé alltaf lægri en 150 m. Fjöldi vindmylla yrði um það bil 58 talsins fyrir vindmyllur með 3,5 MW aflgetu og 67 fyrir vindmyllur með 3,0 MW aflgetu.

Section
Segment

Staðsetning Búrfellslundar

Við staðarval Búrfellslundar var horft til ýmissa samverkandi þátta. Tekið var mið af veðurfarslegum aðstæðum, náttúrufari, dýralífi og öðrum umhverfisþáttum, gildandi skipulagi og innviðum á svæðinu.

Samkvæmt Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 er fyrirhugað framkvæmdasvæði skilgreint sem mannvirkjabelti, en svo eru þau svæði kölluð þar sem aðalfjallvegir hálendisins og mannvirki til raforkuvinnslu eru heimiluð. Rekstur virkjana á Þjórsár- Tungnaársvæðinu nær allt aftur til ársins 1969 og nú eru þar sex vatnsaflsstöðvar; Vatnsfellsstöð, Sigöldustöð, Hrauneyjafossstöð, Búðarhálsstöð, Sultartangastöð og Búrfellsstöð. Auk aflstöðvanna sjálfra eru á svæðinu frárennslisskurðir, uppistöðulón, efnisnámur, vegir og fimm flutningslínur fyrir raforku. Fyrirhugaður Búrfellslundur er því innan eins stærsta orkuvinnslusvæðis landsins og telst því ekki vera á óröskuðu svæði. Sú staðreynd vó þungt við staðarval fyrir Búrfellslund, enda dregur það úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að ofangreindir innviðir séu til staðar.

Veðurfarslegar aðstæður eru afar hagstæðar til reksturs vindlundar á svæðinu og tekið var mið af því við staðarvalið. Á undanförnum tveimur áratugum hefur mikil þekking á veðurfari á svæðinu orðið til enda hafa vindmælingar verið gerðar þar allt frá árinu 1993. Þá hefur rekstur Landsvirkjunar á tveimur rannsóknarvindmyllum á svæðinu undanfarin þrjú ár gefist vel. Af fenginni reynslu þykir enginn vafi leika á því, að fyrirhugað framkvæmdasvæði sé mjög gott til nýtingar vindorku. Nýtnihlutfall vindmyllanna tveggja er að meðaltali yfir 40% og frumreikningar á orkugetu Búrfellslundar gefa til kynna að nýtnihlutfall hans gæti orðið að meðaltali um 50% sem er með því allra besta sem þekkist á heimsvísu.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði er ekki skilgreint sem náttúrverndarsvæði og það er utan óbyggðra víðerna sem skilgreind eru sbr. 5.gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Það er nokkuð afmarkað af fjallgörðum í austur og vesturátt, sem dregur úr sjónrænum áhrifum vindlundarins til þeirra átta.

Að öllu samanlögðu er það álit Landsvirkjunar að staðarvalið sé gott, enda fari þar saman heppilegar rekstraraðstæður, lágmarks rask á umhverfinu og sjónræn áhrif að mestu til norðurs og suðurs vegna fjallgarða sem draga úr ásýnd til annarra átta.

Section
Segment

Matsskýrsla Búrfellslundar

Hér má sækja matsskýrslu Búrfellslundar.

Í kafla 3. er fjallað nánar um framkvæmdina.

Matsskýrsla

186 MB PDF