Section
Segment

Á framkvæmdatíma vindlundarins munu skapast atvinnutækifæri fyrir verktaka og þjónustuaðila í heimabyggð við undirbúning og aðstöðusköpun. Bæði íbúar og ferðaþjónustuaðilar eru almennt jákvæðir í garð vindorku og telja slíkan orkukost samræmast umhverfiskröfum samtímans um græna orku, en setja fyrir sig sjónræn áhrif vindmylla.

Section
Segment

Sveitarfélög

Tillögurnar þrjár eru innan tveggja sveitarfélaga, Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og við mörk þess þriðja (Ásahreppur). Rangárþing ytra er fjölmennasta sveitarfélagið á svæðinu (rúmlega 1.500 íbúar). Landbúnaður er stór atvinnugrein en einnig eru störf í iðnaði og opinberri stjórnsýslu áberandi. Verslun og þjónusta og þar á meðal ferðaþjónusta hefur einnig verið vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu á síðustu árum.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur (rúmlega 500 íbúar) byggir afkomu sína einkum á landbúnaði. Tvær virkjanir Landsvirkjunar, Búrfells- og Sultartangavirkjun, eru staðsettar innan hreppsins.

Ásahreppur er minnst sveitarfélaganna þriggja með rúmlega 200 íbúa. Sveitarfélagið er að mestu landbúnaðarsamfélag, en fjórar af virkjunum Landsvirkjunar eru staðsettar innan sveitarfélagsins; Sigölduvirkjun, Búðarhálsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun og Vatnsfellsvirkjun.

Section
Segment

Íbúar

Rannsóknir á viðhorfi íbúa í sveitarfélögunum þremur sýna að meirihluti íbúa þekkir almennt vel til svæðisins þar sem Búrfellslundur er fyrirhugaður. Almennt telja íbúar svæðið hafa náttúrulegt yfirbragð, vera fallegt, hreint, aðgengilegt og kyrrlátt. Um tíundi hluti upplifir svæðið sem manngert. Í hugum flestra er svæðið fyrst og fremst hrjóstrugur afréttur sem einkennist af gróðurlitlum sand- og hraunsléttum og mikilli víðáttu.

Rúmlega helmingur svarenda telur að það muni ekki hafa nein áhrif á ferðavenjur þeirra um svæðið yrðu vindmyllur reistar í Búrfellslundi og um 20% kæmu frekar á svæðið yrðu vindmyllur reistar og álíka margir kæmu síður.

Rúmlega helmingur svarenda telur stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu góða, en mun færri (15%) telja stöðuna slæma. Meirihluti svarenda (64%) telur að raforkuframleiðsla sé góður kostur í atvinnusköpun í dreifbýli, en 11% lítur á það sem slæman kost.

Section
Segment
Section
Segment

Ferðaþjónusta

Vinsælustu ferðamannastaðirnir í grennd við fyrirhugaðan Búrfellslund eru Þjórsárdalur, Rangárbotnar, Hekla og Dómadalsleið. Áfangagil og Hólaskógur eru einnig vinsælir áfangastaðir ferðamanna, sérstaklega hesta- og göngufólks.

Að mati ferðaþjónustunnar liggur sérstaða svæðisins norðan og austan Búrfells í

  • staðsetningu þess á hálendisbrúninni sem gerir það að inngangi að hálendinu.
  • staðsetningu þess við rætur Heklu sem ein og sér hefur mikið aðdráttarafl og þannig mikið gildi fyrir ferðaþjónustuna.
  • víðernis- og eyðimerkurásýnd svæðisins sem ferðaþjónustuaðilar telja vera sérstöðu Íslands og mikilvæga auðlind fyrir þeirra starfsemi.

Væntingar ferðaþjónustunnar til nýtingar svæðisins norðan og austan Búrfells til framtíðar eru ólíkar. Skiptast þar einkum á sjónarmið þeirra sem sjá hag í því fyrir ferðaþjónustuna að nýta sjálft svæðið og þeirra sem fyrst og fremst líta á það sem gegnumkeyrslusvæði til að komast á önnur svæði.

Svo til allir viðmælendur þekkja til fyrirhugaðra framkvæmda í Búrfellslundi. Viðhorf þeirra til rannsóknarvindmyllanna eru almennt jákvæð. Flestir voru neikvæðir gagnvart uppbyggingu Búrfellslundar, en nokkrir höfðu ekki myndað sér skoðun. Meirihluti viðmælenda telur ólíklegt að Búrfellslundur komi til með að hafa afgerandi áhrif á ferðaleiðir þeirra ferðaþjónustufyrirtækja sem nýta þetta svæði í dag, en fjöldi vindmylla mun hafa áhrif á upplifun ferðamanna.

Section
Segment

Ferðamenn

Ferðamenn hafa ólíkar skoðanir á því hvaða aðstaða og uppbygging er æskileg, bæði almennt og á hverjum stað og er ljóst að ekki er mögulegt að gera öllum til hæfis alls staðar. Samkvæmt rannsóknum felst aðdráttarafl hálendisins að mati flestra ferðamanna sem heimsækja hálendi Íslands fyrst og fremst í „ósnortnum“ víðernum ásamt ýmsum eiginleikum náttúrunnar eins og fegurð, landslagi, útsýni og fjölbreytileika.

Rétt við fyrirhugaðan Búrfellslund eru auk Hrauneyja gististaðirnir Hólaskógur, vestan Þjórsár, og Áfangagil, við rætur Valafells. Eitthvað er um að ferðamenn stoppi við vegamót Dómadals- og Landvegar. Þar er vinsælt að taka myndir af Heklu og þar hefur verið komið fyrir nokkrum upplýsingaskiltum fyrir ferðamenn.

Segment
Section
Segment

Áhrif á nærsamfélag, ferðaþjónustu og útivist

Sveitarfélög

Á framkvæmdatíma munu skapast atvinnutækifæri fyrir verktaka og þjónustuaðila á svæðinu. Slíkt myndi vera í góðu samræmi við almenna stefnumörkun í aðalskipulögum sveitarfélaganna og myndi hafa nokkuð jákvæð áhrif á afkomu þeirra.

Á rekstrartíma vindmylla er gert ráð fyrir 6 viðvarandi störfum við viðhald og eftirlit með starfseminni. Verði tillaga 1 eða 3 fyrir valinu munu tekjur vegna opinberra gjalda af vindmyllum renna til Rangárþings ytra en einnig til Skeiða- og Gnúpverjahrepps verði tillaga 2 fyrir valinu. Slíkt kemur til með að styrkja innviði sveitarfélagsins/félaganna og hafa nokkuð jákvæð áhrif.

Íbúar og ferðaþjónusta

Ásýnd svæðisins norðaustan Búrfells hefur smám saman verið að breytast samfara uppbyggingu vatnsaflsvirkjana og landslag orðið manngerðara. Búrfellslundur myndi að miklu leyti falla innan svæðis sem er manngert. Upplifun fólks á landslagi er mjög mismunandi eftir því hvort um íbúa eða aðkomufólk er að ræða. Á meðan upplifun aðkomufólks byggir fyrst og fremst á fyrstu hughrifum, byggir upplifun heimafólks af landslagi fyrst og fremst á þeim tengslum sem það hefur haft við það. Niðurstöður viðhorfskönnunar sýna að viðhorf íbúa til Búrfellslundar eru blendin. Fyrst og fremst eru það sjónræn áhrif vindmyllanna sem íbúar hafa áhyggjur af en möguleg hávaðamengun er einnig áhyggjuefni margra. Flestir eru samt á því að Búrfellslundur muni ekki hafa afgerandi áhrif á ferðir þeirra um svæðið að undanskyldum hestamönnum sem hafa nýtt svæðið til útreiðatúra. Í viðhorfskönnun á meðal íbúa kom fram að rúmur helmingur svarenda (56%) telur að það muni ekki hafa nein áhrif á ferðavenjur þeirra um svæðið komi til uppbyggingar Búrfellslundar. Tæp 20% telur að þeir kæmu frekar ef reistar yrðu vindmyllur á svæðinu og álíka margir segjast munu síður koma eða ekki koma á svæðið.

Segment
Segment

Flestir ferðaþjónustuaðilar telja ólíklegt að Búrfellslundur muni hafa afgerandi áhrif á ferðaleiðir þeirra ferðaþjónustufyrirtækja sem nýta þetta svæði í dag. Í því samhengi megi benda á að fyrri virkjunarframkvæmdir á hálendinu hafi ekki haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna.

Rannsóknaraðilar telja mikilvægt að tryggja að ferðaþjónusta geti dafnað samhliða raforkuvinnslu. Þannig verði líka tryggt að unnið sé eftir öllum meginmarkmiðum sem stjórnvöld hafa sett fram í ferðamálaáætlunum síðustu ár, það er að náttúra Íslands, menning og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun atvinnugreinarinnar og að tryggð verði samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni.

Rúmlega 5000 gestir hafa heimsótt núverandi rannsóknarvindmyllur Landsvirkjunar þau þrjú sumur sem tekið hefur verið á móti gestum.

Landsvirkjun tekur undir þetta álit og telur að uppbygging Búrfellslundar og ferðamennska geti farið saman á svæðinu. Til stuðnings því má nefna að rúm 10% erlendra ferðamanna sækja gestastofur virkjana heim.

Eins og fram kemur í framangreindri rannsókn sýna erlendar rannsóknir að með markvissri uppbyggingu afþreyingar og þjónustu fyrir ferðamenn samhliða uppbyggingu vindlunda megi auka aðdráttarafl virkjanasvæðis fyrir ferðamennsku.  Tiltekin eru tvö nýleg dæmi þar sem samhliða uppbyggingu vindlunda byggðu sveitarfélögin upp markvissa afþreyingu fyrir ferðamennsku og útivist með því að halda svæðunum opnum og byggja upp hjóla- og göngustíga, reiðhjólaleigu, gistiaðstöðu, gestastofur og bættu aðgengi fyrir veiðiáhugamenn á svæðinu. Virkjanir geti þannig lagt grunn að nýjum tækifærum á sviði ferðaþjónustu hér á landi, skapað ný atvinnutækifæri og stuðlað að dreifingu ferðamanna um landið.

Svipaða sögu má segja um uppbyggingu ferðaþjónustu samhliða upp­byggingu vindlunda í Kaliforníu (sjá viðauka 7). Einnig má benda á reynslu frá Whitelee vindlundinum skammt frá Glasgow í Skotlandi, sem er stærsti vindlundur á landi í Bretlandi. Whitelee vindlundurinn samanstendur af 215 vindmyllum með uppsett afl upp á 539 MW. Innan þess vindlundar eru meira en 130 km af göngu-, hjóla- og reiðstígum og þar er einnig gestastofa með sýningar- og fræðslurými ásamt veitingasölu. Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila staðarins hafa um 450.000 gestir komið í gestastofuna frá árinu 2009. Ljóst er á framangreindu að vindlundur sem slíkur getur haft ákveðið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Byggt á þessu telur Landsvirkjun að uppbygging Búrfellslundar geti farið saman við uppbyggingu og áframhaldandi viðgang ferðaþjónustu í nágrenni svæðisins.

Sé horft til niðurstaðna rannsókna á meðal íbúa og ferðaþjónustuaðila eru viðhorf til Búrfellslundar blendin og áhrif metin nokkuð neikvæð. Fyrst og fremst eru það sjónræn áhrif vindmyllanna sem íbúar hafa áhyggjur af en möguleg hávaðamengun er einnig áhyggjuefni. Benda má á að áhrif eru metin óveruleg á hljóðvist.

Forsendur hafa þó breyst síðan viðhorfskönnunin var gerð. Hámarksfjöldi vindmylla hefur minnkað úr 80 í 67, staðsetning vindlundar færst til og hámarkshæð vindmylla er meiri en gert var ráð fyrir á þessum tíma. Færsla vindlundar er m.a. til að koma til móts við áhyggjur af neikvæðum áhrifum ásýndar frá ferðamannaleiðum.

Ferðamenn

Við greiningu svarenda í náttúrusinna, þjónustusinna og almenna ferðamenn reyndust 56% vera almennir ferðamenn, tæp 28% þjónustusinnar og 16% náttúrusinnar.

Náttúrusinnar eru viðkvæmir fyrir allri röskun á umhverfinu. Þeir hafa ekki áhuga á að hafa merkingar, skipulögð tjaldsvæði eða nokkur mannvirki og vilja hafa sem fæsta aðra ferðamenn þegar þeir eru að ferðast.

Upplifun þjónustusinna skerðist ekki með tilkomu mannvirkja, þeir vilja að göngustígar og skoðunarverðir staðir séu merktir og fjöldi annarra ferðamanna rýrir ekki upplifun þeirra.

Almennir ferðamenn eru þarna á milli og hafa blandaðar skoðanir á þessum þáttum.

Viðhorf ferðamanna til þess hvort þeim þætti ásættanlegra að hafa færri og stærri vindmyllur eða fleiri og minni var yfirleitt á þá leið að jákvæðara væri að hafa færri og stærri vindmyllur. Á móti kemur að jákvæðara þótti að vera með lægri vindmyllur ef fjarlægðin til þeirra var styttri og myndir sýndu fáar vindmyllur.

Fyrirhugaðar vindmyllur í Búrfellslundi verða sýnilegar ferðamönnum sem leið eiga um áhrifasvæði þeirra enda um há mannvirki að ræða. Upplifun ferðamanna mun breytast þaðan sem vindmyllurnar sjást og þeir munu síður upplifa svæðið sem víðerni, en samkvæmt könnun eru flestir sem koma á svæðið komnir til að upplifa víðerni. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að nú þegar eru sex vatnsaflsstöðvar í nágrenni fyrirhugaðs Búrfellslunds. Svæðinu hefur því verið raskað töluvert og flokkast ekki sem „óbyggt víðerni“ samkvæmt skilgreiningu laga um náttúruvernd. Eins ber að horfa til þess að fyrirhugaður Búrfellslundur kemur aðeins til með að vera viðkomustaður en ekki áfangastaður á leið ferðamanna inn á hálendið þar sem hægt er að upplifa hin eiginlegu víðerni.

Þær niðurstöður að uppsetning vindmylla á svæðinu hafi engin áhrif á ákvörðun meirihluta aðspurðra um að ferðast um svæðið (60%) endurspeglar takmörkuð áhrif fyrirhugaðs Búrfellslundar á þann mikla straum ferðamanna sem þarna á leið um enda yfirgnæfandi meirihluta þjónustusinnar eða almennir ferðamenn (84%) en einungis 16% náttúrusinnar.

Segment
Segment

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vindmyllur í Búrfellslundi munu skerða upplifun hluta þeirra ferðamanna sem munu ferðast um svæðið. Mest munu áhrifin verða á hópferðamenn, göngufólk og þá sem fara um á hestbaki, þá ferðamenn sem koma sérstaklega til að upplifa víðerni og náttúrusinna en þeir eru 16% ferðamanna á þessum slóðum.

Megin þorri þeirra ferðamenna sem leið eiga um svæðið samkvæmt rannsókninni (84%) eru annað hvort þjónustusinnar eða almennir ferðamenn. Fyrirhuguð áform munu samkvæmt rannsókninni ekki hafa áhrif á ferðahegðun um 60% ferðamanna og 7% myndu frekar koma á svæðið vegna fyrirhugaðra áforma. Um 66% telja þó að aðdráttarafl svæðisins minnki. Í ljósi þessara niðurstaðna eru áhrif á ferðamenn á svæðinu metin nokkuð neikvæð á heildina litið þar sem einnig er fámennari hópur sem myndi ekki leggja leið sína á svæðið komi til uppbyggingaráforma.

Section
Segment

Mótvægisaðgerðir

Landsvirkjun mun vinna með sveitarfélögum á svæðinu og aðilum í ferðaþjónustu að hugmyndum um hvernig hægt verður að nýta uppbyggingu Búrfellslundar á þann hátt að ný tækifæri skapist í ferðamennsku.

Section
Segment

Matsskýrsla Búrfellslundar

Hér má sækja matsskýrslu Búrfellslundar auk viðauka við matsskýrslu.

Í kafla 7.7 er fjallað nánar um samfélag.

Matsskýrsla

186 MB PDF

Ferðaþjónusta og íbúar

25,5 MB PDF

Ferðamenn

9,2 MB PDF