Section
Segment

Hljóðvist í og við Búrfellslund í dag einkennist af aðstæðum og þeirri starfsemi sem rekin er á svæðinu. Niður er frá Þjórsá sem rennur í útjaðri svæðis í frárennsliskurði frá Sultartangastöð. Einnig er hávaði frá umferð um Þjórsárdalsveg og Landveg.

Section
Segment

Hljóðstigsreikningar

Með tækniþróun hefur tekist að draga úr hljóðstyrk sem berst frá vindmyllum. Hljóð berst frá vindmyllunum með snúningi spaðanna, þegar spaði fer fram hjá mastri, sem og frá rafbúnaði þeirra. Hljóð frá rafbúnaðinum heyrist fyrst og fremst næst vindmyllunum en fjær heyrist meira frá spöðunum. Hljóð sem berst frá vindmyllum er því háð tegund vindmylla en minna hljóð berst frá nýjum tegundum þar sem unnið hefur verið að því að draga úr áhrifum vindmylla á hljóðstig.

Hljóðstig var reiknað fyrir vindhraða upp á 8 m/s. Reiknað var með meðvindi í allar áttir til að fá út mestu hugsanlega hávaðadreifingu. Þegar vindhraði er kominn yfir 8 m/s er veðrið sjálft orðið ráðandi hljóðgjafi og er því litið á 8 m/s sem versta tilvik hvað hljóðstig varðar.

Section
Segment

Hljóðstig vindmylla

Yfirlitskort

Niðurstöður útreikninga á jafngildishljóðstigi dB(A) frá fyrirhuguðum vindmyllum.  Reiknað er með 8 m/s vindhraða í 2 m hæð.

Section
Segment

Áhrif á hljóðvist

Almennt er uppgefið hljóðafl vindmylla frá vélaframleiðendum 106 dB við 8 m/s. Það þýðir að hljóðstig er yfir 70 dB í um 20 m radíus frá vindmyllu í masturshæð, en í grennd við jörð er hljóðstig komið nokkuð vel undir það. Hljóðstig frá vindmyllum verður vel undir 70 dB mörkunum sem skilgreind eru í reglugerð um hávaða fyrir iðnaðar- og athafnasvæði og raunar hvergi yfir 60 dB. Miðað við 8 m/s vindhraða verður hljóðstig 50 - 55 dB í 250 - 300 m fjarlægð frá hverri vindmyllu en í meiri fjarlægð innan vindlundarins verður hljóðstig almennt á bilinu 45 - 50 dB. Í um 1 - 1,5 km fjarlægð frá vindlundi verður hljóðstig komið niður fyrir 40 dB mörk sem skilgreind eru fyrir kyrrlát svæði í reglugerð. Utan þessa svæðis ættu áhrif vindmylla á hljóðstig að vera óveruleg.

Auk útreiknaðra gilda sem sýnd eru á korti var hljóðstig reiknað sérstaklega fyrir fjóra staði sem gætu verið viðkvæmir fyrir hávaða. Þessir staðir eru eftirtaldir:

  • Bærinn Stöng í Þjórsárdal
  • Við Háafoss
  • Hólaskógur
  • Áfangagil
Section
Section
Segment

Niðurstöður útreikninga sýna að hljóðstig frá vindlundi hefur ekki teljandi áhrif á hljóðvist á framangreindum stöðum.

Hljóðstig frá vindmyllunum er innan þeirra marka sem skilgreind eru í reglugerð fyrir iðnaðar- og athafnasvæði á öllu svæðinu. Innan Búrfellslundar verður hljóðstig frá vindmyllunum greinilegt og þar ráðandi hljóðgjafi, þó þannig að hljóðstig er alls staðar vel innan viðmiðunarmarka.

Í um 1,5 km fjarlægð verður hljóðstig komið niður fyrir þau mörk sem skilgreind eru fyrir kyrrlát svæði, þ.e. svæðum ætluðum til útivistar. Utan þess svæðis eru áhrif vindmyllanna á hljóðstig lítil og fara minnkandi eftir því sem fjarlægðir aukast. Í ljósi framangreinds og með tilliti til skilgreindra viðmiða eru áhrif á hljóðstig metin óveruleg fyrir allar tillögur.

Munur á milli tillaga, með tilliti til hljóðstigs, felst í því að þar sem Þjórsárdalsvegur (nr. 32) kemur til með að liggja í gegnum vindlundinn, samkvæmt tillögu 2 og 3, verða fleiri fyrir áhrifum vegna þess heldur en samkvæmt tillögu 1. Hvað Landveginn varðar yrði hljóðstig hærra á þeim kafla þar sem hann liggur í gegnum Búrfellslund samkvæmt tillögu 1 og 3, en samkvæmt tillögu 2. Komi til tilfærslu á Landvegi yrði Landvegur í jaðri Búrfellslundar og hljóðstig þannig svipað og fyrir tillögu 2. Vægi áhrifa er þó metið það sama fyrir allar tillögur.

Section
Segment

Matsskýrsla Búrfellslundar

Hér má sækja matsskýrslu Búrfellslundar auk viðauka við matsskýrslu.

Í kafla 7.3 er fjallað nánar um hljóðvist.

Matsskýrsla

186 MB PDF

Hljóðstigsreikningar

6,7 MB PDF