Section
Segment

Fyrirhugað framkvæmdasvæði hefur orðið fyrir miklum áhrifum af eldvirkni frá lokum ísaldar fyrir um 10.000 árum. Meginhluti þess er þakinn gjósku sem þekur að mestu undirliggjandi eldhraun og gervigíga. Unnið var að jarðfræðirannsóknum á svæðinu á árunum 2013 - 2015 og byggir eftirfarandi umfjöllun á því sem þar kemur fram (sjá viðauka 4).

Section
Segment

Hraun

Að minnsta kosti 11 hraun hafa runnið frá sprungusveim Veiðivatna, sem tengist Bárðarbungu eldstöðinni, þar af er talið að 6 þeirra séu að hluta innan þess svæðis þar sem Búrfellslundur er afmarkaður. Tvö yngstu hraunin úr sprungusveimi Veiðivatna þekja mest allt svæði fyrirhugaðs Búrfellslundar. Næst yfirborði er 3.000 ára gamalt Búrfellshraun undir lausu efni sem samanstendur af gjósku og sandi. Meðaldýpi niður á hraunið er um 4 m. Hin 4 hraunin úr sprungusveimi Veiðivatna hafa líklegast runnið eftir farvegum. Sú ályktun er dregin út frá því að ekki hefur orðið vart við þessi 4 hraun í jafn mörgum borholum og tvö yngstu hraunin sem fjallað er um hér á undan.

Sölvahraun og Taglgígahraun eru einu hraunin sem eiga ekki uppruna sinn í sprungusveim Veiðivatna. Þessi hraun koma frá Heklu og eru um 1.200 ára gömul. Laust efni og gjóskulög milli hraunlaga eru einnig frá Heklu. Sölvahraun er sunnan við tillögur 1 og 3 og Taglgígahraun er á yfirborði í norðausturhorni tillögu 2. Samkvæmt borkjarnarannsóknum er minnsta dýpi niður á fastan botn um 1,3 m og mesta dýpi 10,5 m.

Búrfellslundur er á eldhrauni frá nútíma undir gjóskulagi sem er að meðaltali um 4 m að þykkt. Svæðið er tiltölulega flatt og þar er einnig nokkuð um gervigíga. Bæði eldhraun og gervigígar eru landslagsgerðir sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Landslagsgerðirnar eru þó vart sjáanlegar á yfirborði vegna gjósku sem þekur svæðið og gígana að mestu eða öllu leyti og hafa því lítið verndargildi. Með tilliti til viðmiða hefur gjóskan sem slík ekki verndargildi.

Section

Horft yfir Sölvahraun í átt að Valafelli, í jaðri myndar til hægri eru svo Valahnjúkar.

Section
Segment

Áhrif á jarðmyndanir

Mögulegt rask vegna fyrirhugaðra framkvæmda nemur 0,9 km2 fyrir tillögu 1

Við uppsetningu vindmylla og vegagerð á svæðinu verður gjósku í einhverjum tilvikum skipt út fyrir jarðefni með meira burðarþol og fer umfang þess eftir aðstæðum á hverjum stað. Rúmmál undirstaðna vindmyllanna fer eftir því hvort þær verða grundaðar beint ofan á berggrunninum eða hvort notuð verða bergakkeri. Í báðum tilvikum er um lítið rask á jarðmyndunum að ræða, þó sýnu meira ef ekki verður notast við akkeri. Sjáanlegt rask á jarðmyndunum er því lítið sem ekkert.

Efnistökusvæði sem ætlunin er að nýta við þessa framkvæmd og fjallað er um hér eru ekki á svæðum sem hafa verndargildi samkvæmt aðalskipulagsáætlunum og náttúruverndarlögum. Þá ber að nefna að Landsvirkjun leggur mikla áherslu á góða umgengni og vandaðan frágang á framkvæmdasvæðum eins og fram kemur hér á eftir. Þetta á jafnt við um framkvæmdir við uppsetningu vindmyllanna, vegagerð og efnistöku.

Mögulegt rask vegna fyrirhugaðra framkvæmda nemur 1,0 km2 fyrir tillögu 2 og 3

Fyrirhugaðar framkvæmdir munu hafa staðbundin neikvæð áhrif á jarðmyndanir með verndargildi. Hér er um að ræða eldhraun og gervigíga sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd. Áhrifin verða varanleg þar sem jarðvegur verður fjarlægður og að hluta nýttur við efnisvinnslu í tengslum við framkvæmdir. Þar sem jarðmyndanirnar eru að mestu eða öllu leyti kaffærðar í gjósku er verndargildi þeirra takmarkað, og áhrifin metin óveruleg. Við hönnun og uppsetningu mastra og aðrar framkvæmdir á svæðinu verður horft til þess að halda jarðraski í lágmarki.

Innan efnistökusvæða verða óveruleg áhrif á jarðmyndanir með verndargildi. Enginn greinarmunur er gerður á vægi áhrifa á milli tillaga.

Section
Segment

Mótvægisaðgerðir

Við hönnun er þess gætt að vegir og plön verði ekki umfangsmeiri en nauðsyn krefur, að geymslusvæði verði haldið í lágmarki sem og öðrum framkvæmdaþáttum. Með því er dregið úr áhrifum á umhverfisþáttinn jarðmyndanir.

Jafnframt gerir Landsvirkjun miklar kröfur til verktaka og þjónustuaðila um umhverfis- og öryggismál. Eftirfarandi kröfur eiga við um frágang og umgengni sem miða að því að lágmarka rask og draga úr áhrifum á jarðmyndanir:

  • Allt jarðrask utan framkvæmdasvæðis er óleyfilegt.
  • Forðast skal óþarfa jarðrask innan leyfilegs framkvæmdasvæðis. Akstur utan vega er óheimill.
  • Losun á olíu og olíuefnum í vatn, grunnvatn og jarðveg er bönnuð.
  • Fylgja skal ákvæðum í verklýsingu er varða frágang varanlegra mannvirkja, efnisnáma, haugsvæða og vinnusvæða fyrir búðir og aðra aðstöðu.
  • Tryggja skal snyrtilega umgengni um framkvæmdasvæðið á framkvæmdatíma.

Farið verður að þessum kröfum í þessu verkefni sem og öðrum verkefnum á vegum Landsvirkjunar. Í umhverfisstjórnunarkerfi Landsvirkjunar er haldið utan um eftirlit með framkvæmdum og að áhrif á umhverfi séu vöktuð í samræmi við niðurstöður mats á umhverfisáhrifum, skilyrði sem sett eru í leyfi og kröfur Landsvirkjunar.

Section
Segment

Matsskýrsla Búrfellslundar

Hér má sækja matsskýrslu Búrfellslundar auk viðauka við matsskýrslu.

Í kafla 7.4 er fjallað nánar um jarðmyndanir.

Matsskýrsla

186 MB PDF

Jarðfræði

28,5 MB PDF