Section
Segment

Náttúrustofa Norðausturlands og Háskólinn í Árósum unnu ítarlega rannsókn á fuglalífi í tengslum við fyrirhugaðar vindmyllur í Búrfellslundi. Alls eru 18 tegundir fugla taldar verpa á svæðinu eða í næsta nágrenni þess, þar af þrjár á válista, grágæs, fálki og hrafn. Af þeim er aðeins grágæs talin verpa innan svæðisins en fálki og hrafn eiga varpóðul í næsta nágrenni.

Section
Segment

Þéttleiki og farleiðir

Þar sem áform um raforkuvinnslu með vindmyllum eru ný af nálinni hér á landi og reynsla af fuglarannsóknum í tengslum við slík verkefni engin var ákveðið að vinna verkefnið í samstarfi við aðila sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á þessu sviði. Úr varð að samið var við Háskólann í Árósum um að gera ítarlega rannsókn á fuglalífi í tengslum við fyrirhugaðar vindmyllur í Búrfellslundi, í samstarfi við Náttúrustofu Norðausturlands.

47 fuglategundir sáust á svæði Búrfellslundar. Mest farfuglar vor og haust.

Í fuglarannsókninni sáust alls 47 tegundir fugla við athuganirnar sem fram fóru árið 2014. Af þeim eru 12 skráðar á válista. Flestar tegundir sáust við ratsjárathuganir að vori og hausti þegar farfuglar áttu leið um svæðið en færri um sumarið þegar athugað var með varpfugla.

Mest sást af mófuglum nyrst á rannsóknarsvæðinu, næst Sultartangalóni. Auk þess skar vestasti talningarpunkturinn sig úr hvað varðar fjölda mófugla en þar sáust 13 fuglar. Til samanburðar sáust næst mest 6 fuglar á einum talningarpunkti. Með því að bera saman tillögur 1 og 2 fyrir Búrfellslund sést að tillaga 1 er á því svæði sem hvað minnst sást af mófuglum. Tillaga 2 nær hins vegar bæði yfir svæðið næst Sultartangalóni og vestasta punktinn sem gaf svo marga fugla. Munur á uppreiknuðum fjölda mófugla er mikill eða rúmlega þrefaldur, nánar tiltekið 257 fuglar á svæði miðað við tillögu 1 á móti 816 fuglum á svæði miðað við tillögu 2. Hvað varðar tillögu 3 þá er hún talin vera svipuð tillögu 1 er varðar þéttleika varpfugla þar sem þessar tillögur ná ekki inn á grónari svæði næst Sultartangastíflu eins og tillaga 2 gerir.

Þéttleiki mófugla á rannsóknarsvæðinu er mjög lágur og langt undir því sem gerist á vel grónum svæðum hérlendis, enda rannsóknarsvæðið lítt gróið og nokkuð hátt í landi. Svæðið einkennist af tegundafæð og lágum þéttleika varpfugla. Allar tegundirnar eru algengar á héraðs- og landsvísu. Rannsóknarsvæðið í heild telst því ekki mikilvægt búsvæði mófugla.

Við greiningu á farleiðum fugla voru hnitsettir 1853 ferlar. Samkvæmt þessum niðurstöðum þótti greinilegt að meginfar fugla að vori lá í suðvestur – norðaustur stefnu (eða öfugt) yfir svæðinu og fór meirihluti hópa um vestan- og norðanverðan hluta rannsóknarsvæðisins. Mikill fjöldi hópa, að mestu leyti gæsir, fór um Þjórsárdal og þaðan upp með Hafinu milli Skeljafells og Stangarfjalls. Þaðan virtust þeir stefna áfram um eða meðfram Sandafelli og norðaustur yfir Sultartangastíflu. Fyrri part vors sáust hópar koma úr gagnstæðri átt en fylgdu meira og minna sömu landfræðilegu kennileitum.

Section
Segment

Ferlar fugla að vori

Yfirlitskort

Ferlar fugla sem sáust með aðstoð ratsjár á rannsóknarsvæðinu og í nágrenni þess vorið 2014.

Section
Segment

Að hausti lágu flestar farleiðir til suðurs og austurs og fylgdu ekki ákveðnum meginleiðum eins og að vori. Megin farleiðir að vori liggja að mestu utan allra tillaga að legu Búrfellslundar. Farleiðir að hausti virðast liggja dreifðar og víðar í gegnum tillögur að Búrfellslundi en að vori. Þó ber að nefna að flughæð var almennt meiri að hausti og ekki eins fylgjandi ríkjandi vindátt á svæðinu. Það merkir að fuglar að hausti eru líklegri til að vera ofan hættusvæðis auk þess sem flugstefna þeirra er hagstæð miðað við líklega stöðu vindmyllanna m.t.t. ríkjandi vindstefnu.

Jafnmargar tegundir sáust að vori sem hausti en tegundasamsetningin var misjöfn. Meira sást af andfuglum og vaðfuglum að vori en um haustið fjölgaði máffuglum og spörfuglum. Þá var hópastærð fugla almennt meiri að hausti.

Section
Segment

Ferlar fugla að hausti

Yfirlitskort

Ferlar fugla sem sáust með aðstoð ratsjár á rannsóknarsvæðinu og í nágrenni þess haustið 2014.

Section
Segment

Áhrif á fugla

Almennt

Áhrif vindmylla á fugla geta verið margvísleg, eftir því hvar þær eru staðsettar og hvaða fuglategundir eru á eða fara um viðkomandi svæði. Erlendis hefur verið sýnt fram á að helstu neikvæðu áhrif vindmylla á fugla megi skipta í eftirfarandi fjóra flokka:

  • Áflug er augljósasti flokkurinn enda lenda fuglar oft í árekstri við vindmyllur. Fuglar geta einnig látið lífið við að kastast til jarðar eftir að hafa flogið inn í vindsveipi frá spöðum vindmylla.
  • Fæling er það þegar fuglar forðast vindlundi og nota svæðið þá í minna mæli en áður sér til viðurværis. Þetta stafar bæði af vindmyllunum sjálfum og þeirri umferð og athöfnum sem óhjákvæmilega fylgir þeim. Í sumum tilfellum á fælingin sér fyrst og fremst stað á framkvæmdatíma og er tímabundin á meðan mest umferð er um svæðið.
  • Hindrun á farleiðum fugla. Margar fuglategundir forðast vindlundi og kjósa fremur að sneiða hjá þeim eða fljúga yfir þá, fremur en í gegnum þá. Þannig geta vindlundir haft slæm áhrif ef þeir loka mikilvægri flugleið, til að mynda á milli fæðu- og varpstöðva fugla.
  • Búsvæðamissir vegna lands sem fer undir mannvirki.

Rannsóknir hafa sýnt að vindlundir hafa ólík áhrif á mismunandi tegundahópa fugla. Áhrif á spörfugla virðast þannig fyrst og fremst bundin við áflug, áhrif á vaðfugla virðast fólgin í fælingu og hindrun á flugleið en andfuglar verða fyrir áhrifum af öllum þáttum. Þá er þekkt að stórum fuglum, líkt og gæsum, er almennt hættara við áflugi en minni fuglum. Þetta eru þó einungis almennar ályktanir út frá tegundum sem búið er að rannsaka en breytileiki getur verið innan tegundahópa.

Segment

Áhrif Búrfellslundar

Fjöldi fugla á ári sem gæti lent í árekstri ef vindmyllur verða reistar samkvæmt tillögu 1

Í rannsókn Náttúrustofu Norðausturlands og Háskólans í Árósum þótti mikilvægt að leggja mat á áflugshættu við fyrirhugaðar vindmyllur þar sem líkur voru taldar á nokkurri umferð farfugla á þessum árstímum (vori og hausti). Einkum var horft til heiðagæsa og þess hvort umferð þeirra á leið til varpstöðva, til að mynda í Þjórsárverum, lægi um svæðið. Einnig voru taldar líkur á umferð annarra fuglategunda um svæðið til og frá varpstöðvum á hálendinu eða á leið þeirra á milli Suðurlands og Norðurlands.

Miðað við tillögu 1 sýna niðurstöður að fjöldi hópa sem lendir í árekstri gæti orðið frá 3 til 6 á ári. Fyrir tillögu 2 eru samsvarandi tölur lægri eða frá 1 til 3. Áflugshætta tillögu 3 er talin liggja á milli tillögu 1 og 2.  Gera má ráð fyrir að flestir hópar séu heiðagæsir en aðrir hópar væru líklegastir heiðlóur, álftir og grágæsir. Áflugshættan yrði mest í september en um haustið eru hóparnir auk þess stærstir.

Fjöldi fugla á ári sem gæti lent í árekstri ef vindmyllur verða reistar samkvæmt tillögu 2

Niðurstöður sýna að fjöldi fugla sem lendir í árekstri gæti orðið frá 6 til 14 fuglar á ári ef vindmyllur verða reistar samkvæmt tillögu 1. Samsvarandi tölur fyrir tillögu 2 eru lægri eða frá 3 til 7. Almennt er áflugshættan mest í maí og október. Afföll álfta yrðu mest í október þó ekki sé um mikinn fjölda að ræða. Áflug gæsa yrði einnig mest í október en flest afföll heiðlóa yrðu í september og október. Þar sem tillaga 3 er blanda beggja fyrri tillagna, sem hvorug er talin valda miklum afföllum töldu rannsóknaraðilar  ekki þörf á að reikna út áflugshættu sérstaklega fyrir tillögu 3. Áflugshætta fyrir tillögu 3 er talin liggja á milli tillagna 1 og 2 enda er hún blanda af þeim tveimur.

Niðurstöður útreikninga á áflugshættu benda til þess að hún sé almennt lítil í fyrirhuguðum Búrfellslundi og möguleg afföll farfugla því lítil vegna vindmyllana.

Section
Section
Segment

Válistategundirnar grágæs, fálki og hrafn verpa innan eða í næsta nágrenni rannsóknarsvæðisins. Engin þeirra er talin verða fyrir teljanlegum skakkaföllum vegna fyrirhugaðra vindmylla í Búrfellslundi og er enginn munur talinn vera á því milli tillaga. Þéttleiki mófugla innan rannsóknarsvæðisins er mjög lágur og tegundir sem fundust allar algengar og stofnar þeirra stórir, hvort sem miðað er við á héraðs- eða landsvísu. Möguleg fælingaráhrif og búsvæðamissir varpfugla vegna vindmylla yrðu því líklega mjög lítil. Áflug varpfugla mun að öllum líkindum eiga sér stað í einhverjum mæli, sérstaklega hjá tegundum eins og heiðlóu sem stunda söngflug í vindmylluhæð. Vegna lágs þéttleika varpfugla er þó ekki talið að þessi áflug verði tíð, sama hvaða tillaga að Búrfellslundi verður fyrir valinu. Rétt er samt að hafa í huga að þéttleiki mófugla er mun meiri innan tillögu 2 en tillögu 1 og 3 og áhrifa vindlundarins á varpfugla mun því líklega gæta í meira mæli þar. Á heildina litið er talið að Búrfellslundur muni hafa óveruleg áhrif á stofna varpfugla á héraðs- eða landsvísu.

Niðurstöðurnar benda til lágrar áflugstíðni farfugla við vindmyllur í fyrirhuguðum Búrfellslundi. Meginfarleið heiðagæsa um svæðið að vori virðist hins vegar fremur liggja nærri og um svæði sem tilheyra tillögu 2. Eru tillögur 1 og 3 því taldar skárri kostur með tilliti til farfugla.

Samkvæmt niðurstöðum tegundagreininga er yfirgnæfandi meirihluti farfugla heiðagæsir. Einnig fara heiðlóur, grágæsir og álftir mikið um svæðið. Stofnar heiðagæsar og grágæsar eru gríðarstórir og hafa farið stækkandi síðustu ár. Stofnar heiðlóu og álftar eru einnig stórir og báðar tegundir algengar um allt land. Ólíklegt er að Búrfellslundur muni hafa nokkur áhrif á þessa stofna á héraðs- eða landsvísu.

Uppbygging Búrfellslundar mun hafa í för með sér bein neikvæð áhrif á varpfugla innan svæðis og einnig á farleiðir fugla og þar með er hætta á áflugi fugla á vindmyllur. Í ljósi niðurstaðna ítarlegra rannsókna er talið að umfang/vægi áhrifa á heildina litið sé óverulegt. Áhrif á fugla eru því metin óveruleg.

Heildarniðurstaðan er sú að Búrfellslundur er talinn hafa lítil áhrif á fuglalíf óháð útfærslu tillögum að útfærslu lundarins. Tillögur 1 og 3 eru taldar betri en tillaga 2 hvað varpfugla varðar vegna minni þéttleika en varpþéttleiki er þó almennt mjög lágur á öllu svæðinu.  Um áflug farfugla má gera ráð fyrir meiri afföllum við tillögu 1 en 2. Tillaga 3 er talin liggja þar á milli. Flugferlar fugla að vori benda til að megin farleiðin liggi til norðausturs sitt hvoru megin við Sandafell og út frá því væri tillaga 1 besti kosturinn en tillaga 2 sá sísti.

Section
Segment

Mótvægisaðgerðir

Fuglarannsóknir hafa leitt í ljós að ekki þurfi að grípa til mótvægisaðgerða gagnvart fuglalífi vegna uppbyggingar Búrfellslundar. 

Section
Segment

Matsskýrsla Búrfellslundar

Hér má sækja matsskýrslu Búrfellslundar auk viðauka við matsskýrslu.

Í kafla 7.6 er fjallað nánar um fugla.

Matsskýrsla

186 MB PDF

Fuglar

9,8 MB PDF

Fuglar tillaga 3

5,7 MB PDF