Section
Segment

Við undirbúning og kynningu verkefnisins komu fram ýmsar ábendingar og athugasemdir sem snerust meðal annars um eftirfarandi:

  • Nálægð vindlundar við Dómadalsleið.
  • Möguleg áhrif vindlundar á uppgræðslusvæði við Sölvahraun.
  • Sjónræn áhrif af flugöryggisljósum á vindmyllum.
  • Skert sýn frá Landvegi til Heklu fari vegurinn í gegnum Búrfellslund.
  • Fjöldi vindmylla innan Búrfellslundar.
  • Neikvæð áhrif á ásýnd á nálægum ferðamannastöðum s.s. Áfangagili og Hólaskógi.
  • Rask á gróður- og landgræðslusvæðum innan vindlundar.
  • Áhrif á fugla.
  • Hljóðvist frá vindmyllum.

Tillögur að afmörkun Búrfellslundar hafa mótast í gegnum matsferlið með það að markmiði að koma til móts við ábendingar og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Slíkt verklag er í samræmi við markmið laga um mat á umhverfisáhrifum um að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Í matsáætlun var lögð fram ein tillaga að afmörkun Búfellslundar. Til að koma til móts við ábendingar sem bárust við kynningu á matsáætlun um nálægð við Dómadalsleið og uppgræðslusvæði voru útfærðar tvær tillögur í frummatsskýrslu. Í matsskýrslu er sett fram tillaga 3 til að koma til móts við umsagnir og athugasemdir sem fram komu við kynningu á frummatsskýrslu um víðtæk áhrif Búfellslundar á ásýnd í byggð og á ferðamannastöðum auk áhrifa á nálægum ferðamannastöðum s.s. í Áfangagili og Hólaskógi. Tillaga 3 er innan marka tillögu 1 og tillögu 2 og því ekki um nýtt svæði að ræða, heldur frekari útfærslu á þeim tillögum sem voru til skoðunar í frummatsskýrslu.

Landsvirkjun gerir einnig tillögu að því að hafa ekki flugöryggisljós til að lágmarka sjónræn áhrif, en fordæmi eru fyrir slíku verklagi í Skotlandi á svæðum sem eru fjarri flugvöllum. Að auki er tillaga um færslu Landvegar út fyrir lundinn, verði tillaga 1 eða 3 fyrir valinu, en með því yrði sýn til Heklu ekki skert á þeim kafla. Þekkt mótvægisaðgerð til að draga úr áhrifum á ásýnd er að hafa vindmyllur færri og stærri frekar en fleiri og minni og verður hugað að því við ákvörðun um stærð og fjölda vindmylla innan Búrfellslundar.

Á hönnunarstigi er einnig hugað að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Má þar nefna að skoðað verður hvort þörf verði á að afísingarbúnaði til að draga úr hættu á ískasti. Litaval er skýjagrátt, tekið er tillit til skógarleyfa í Klofaey og lágmörkun lagersvæða til þess að draga úr umfangi raskaðra svæða.

Miðað við niðurstöður þessarar matsskýrslu eru einkenni og vægi umhverfisáhrifa í fæstum tilfellum þess eðlis að þau kalli á mótvægisaðgerðir (hljóð, jarðrask, gróður, fuglar, fornleifar). Hvað varðar landslag og ásýnd eru mannvirkin það há að ekki er um eiginlegar mótvægisaðgerðir aðrar en litaval, uppröðun vindmylla og lágmörkun flugöryggisljósa að ræða til að draga úr áhrifum.

Landsvirkjun mun vinna með sveitarfélögum á svæðinu og aðilum í ferðaþjónustu að hugmyndum um hvernig hægt verður að nýta uppbyggingu Búrfellslundar á þann hátt að ný tækifæri skapist í ferðamennsku.

Section
Segment

Matsskýrsla Búrfellslundar

Hér má sækja matsskýrslu Búrfellslundar.

Í kafla 8.1.1 er fjallað nánar um mótvægisaðgerðir.

Matsskýrsla

186 MB PDF