Section
Segment

Landsvirkjun hvetur íbúa og aðra hagsmunaaðila til að kynna sér verkefnið og niðurstöður umhverfismatsins hér á vef fyrirtækisins og hjá Skipulagsstofnun.

Section
Segment

Matsferlið

Lögum samkvæmt skal meta með faglegum hætti umhverfisáhrif af öllum stærri framkvæmdum. Framkvæmdaraðila er skylt að gera grein fyrir áformaðri framkvæmd, meta hver umhverfisáhrifin kunna að 
verða og hvernig megi draga úr neikvæðum áhrifum 
með sérstökum mótvægisaðgerðum. Mikilvægur þáttur í ferlinu er að kynna ætluð umhverfisáhrif fyrir almenningi og gefa öllum tækifæri til að koma ábendingum á framfæri.

Undirbúningur

Fyrsta skrefið er að leggja fram matsáætlun, þar sem hugmyndir fyrirtækisins og áherslur í umhverfismatinu eru tilgreindar. Í áætluninni er framkvæmdinni lýst, hvaða þættir hennar gætu haft áhrif á umhverfið, hvaða umhverfisþættir (t.d. gróður, vatnafar) gætu orðið fyrir umhverfisáhrifum og hvernig rannsóknum á þeim skuli háttað. Þá kemur fram hvernig kynningu og samráði verður háttað. Matsáætlunin er kynnt opinberlega og almenningi gefinn kostur á að
koma ábendingum á framfæri. Skipulagsstofnun sendir áætlunina jafnframt til umsagnar opinberra stofnanna og stjórnvalda sem málið varðar. Framkvæmdaraðila gefst kostur á að svara umsögnum og athugasemdum og að því loknu tekur stofnunin ákvörðun og ýmist fellst á eða hafnar áætluninni.

Kynning

Þegar matsáætlun hefur verið samþykkt skal framkvæmdaraðili vinna matið, samkvæmt forskrift áætlunarinnar og ákvörðun Skipulagsstofnunar. Þegar niðurstaða mats á umhverfisáhrifum liggur fyrir skal setja hana fram á tiltekinn hátt. Fyrst skal senda frummatsskýrslu 
til Skipulagsstofnunar, sem sendir hana til umsagnar hjá viðeigandi aðilum og gefur öllum sem vilja kost á að gera athugasemdir. Framkvæmdaraðili gerir svo endanlega matsskýrslu, að teknu tilliti til athugasemda sem kunna að hafa borist við frummatsskýrsluna.

Afgreiðsla

Eftir að endanlegri matsskýrslu hefur verið skilað vinnur Skipulagsstofnun álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Telji stofnunin að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða mótvægisaðgerðir en fram koma í matsskýrslu eru þau sett fram í álitinu. Skipulagsstofnun kynnir að lokum niðurstöður sínar fyrir framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og almenningi.

Section
Segment