Búrfellslundur

Mat á umhverfisáhrifum

Spila myndskeið
Section
Segment

Óþrjótandi auðlind

Vindorka er endurnýjanleg orkulind. Það þýðir að ekki er gengið á auðlindina, þótt hún sé nýtt til orkuvinnslu. Ísland er meðal þeirra svæða í heiminum þar sem vindur á landi er hvað mestur. Rannsóknir gefa til kynna að skilyrði til vindorkuvinnslu hér á landi séu afar hagstæð.

Segment

Hvaðan kemur vindurinn?

Vindur er loft á hreyfingu og orsakast af loftþrýstingsmun. Loft á svæðum með háan loftþrýsting streymir að svæðum með lægri loftþrýsting og því meiri sem þrýstingsmunurinn er, því meiri er vindhraðinn. Snúningur jarðar hefur áhrif á vindafar og veldur hringhreyfingum í veðrakerfum. Allan vind, sem og allt veður, má rekja til mismunandi geislunarbúskapar yfirborðs jarðar, þ.e. bæði inngeislunar og útgeislunar. Sólarupphitun ræðst aðallega af sólarhæð en einnig af því hvernig yfirborð jarðar tekur ólíkt við sólargeislunum. Sólarhæðin ræðst af breiddargráðu, tíma dags og árs en upphitun yfirborðs af því hve mikilli geislun er endurkastað frá því og hve mikinn varma það getur geymt. Yfir hlýju yfirborði hlýnar loftið og þenst út, það verður léttara og leitar upp á við og þá myndast lágþrýstingur við yfirborðið. Yfir köldu yfirborði er ferlið gagnstætt. Ísland er það norðarlega á jörðinni að sólgeislunin ein og sér nær ekki að halda uppi hita en loft- og hafstraumar bera varma til okkar frá suðlægari breiddargráðum, sem oftast má rekja til sólargeislunar. Sólfarsvindar, þ.e. hafgola og landgola, eru dæmi um vinda sem á Íslandi má rekja beint til mismunandi upphitunar yfirborðs.

Segment

Vindorka á Íslandi

Ísland er meðal þeirra svæða í heiminum þar sem vindur á landi er hvað mestur. Rannsóknir gefa til kynna að skilyrði til vindorkuvinnslu hér á landi séu afar hagstæð. Möguleikar á virkjun vindorku eru því miklir á Íslandi.


Meðalvindhraði í   80m hæð

Segment

Vindlundur

Vindlundur er það svæði kallað þar sem margar vindmyllur eru reistar í þyrpingu (e. wind farm eða wind park). Innan vindlundar eru vindmyllur sem reistar eru á undirstöðum. Undirstöðurnar eru í flestum tilvikum hringlaga eða átthyrndar í laginu með þvermál allt að 25 m. Lagður er aðkomuvegur og kranaplan við hverja vindmyllu. Vindmyllurnar eru tengdar inn á dreifikerfi raforku með jarðstreng að safnstöð þar sem safnspenna er hækkuð. Frá safnstöð er raforkan flutt með jarðstreng að flutningskerfi Landsnets.

Segment

Umhverfisvænn kostur

Vindorka er ein sú hreinasta orka sem fáanleg er. Virkjun vindorku veldur ekki losun gróðurhúsalofttegunda. Vindmyllur framleiða margfalt meira af raforku en fer í að byggja þær, flytja og farga. Dæmi eru um að það taki innan við 5 mánuði fyrir vindmyllu að endurgjalda orkuþörf sína, þ.e. að framleiða eins mikla orku og hún þarf allan sinn lífsferil. Umhverfisáhrif eru lítil og að mestu afturkræf. Vindmyllur er hægt að staðsetja víðast hvar og uppsetning vindmylla útilokar ekki uppgræðslu eða landbúnað á sama svæði.

Segment

Af hverju eru vindmyllur stórar?

Vindafar á landi getur verið mjög svæðisbundið vegna breytileika í landslagi. Meðaltal vindhraða og ríkjandi vindátt geta breyst mikið milli aðliggjandi svæða. Þessar breytingar ráðast aðallega af hæðarbreytingum í landi, en almennt er hærri vindstyrkur á hólum en í dölum.

Mismunandi yfirborðsgerðir hafa ólíkt hrýfi (viðnám) við vind nærri jörðu. Skóglendi hefur meira hrýfi en sléttlendi en skógurinn lyftir að sumu leyti yfirborðinu og því er vindstyrkur oft minni í og rétt yfir skóglendi. Þessi áhrif minnka með aukinni hæð yfir yfirborði og meðaltal vindhraða eykst samhliða. Vindmyllur eru því oft stór mannvirki til að geta komist í þá hæð þar sem hrýfi hefur minni áhrif, vindstyrkur er hærri og orkugeta er meiri.

Segment

Afl vindmyllu

Skýringarmynd

Myndin að ofan sýnir hvernig vindmyllur beisla hreyfiorku vindsins.

  • Ef lengd spaða tvöfaldast þá fjórfaldast rafmagnsframleiðsla
  • Ef vindhraði tvöfaldast þá áttfaldast rafmagnsframleiðslan
Section
Segment

Búrfellslundur

Til stendur að reisa 200 MW vindlund, Búrfellslund á hraun- og sandsléttunni austan Þjórsár og á Hafinu, þar sem Landsvirkjun rekur nú þegar tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Reiknað er með að hámarkshæð þegar spaðar eru í efstu stöðu sé alltaf lægri en 150 m. Fjöldi vindmylla yrði um það bil 58 talsins fyrir vindmyllur með 3,5 MW aflgetu og 67 fyrir vindmyllur með 3,0 MW aflgetu.

Segment

Vindafar Búrfellslundar

Vindafar í fyrirhuguðum Búrfellslundi er mjög hentugt fyrir vindorku. Aðliggjandi fjallgarðar mynda trekt fyrir vind ofan af hálendinu sem streymir í gegnum framkvæmdasvæðið. Miklar sandsléttur eru einkennandi fyrir svæðið sem hefur því lágt yfirborðshrýfi. Vindafar svæðisins einkennist því af miklum vindstyrk nálægt yfirborði. Nýtnihlutfall rannsóknarvindmyllanna tveggja á Hafinu er að meðaltali yfir 40% og frumreikningar á orkugetu Búrfellslundar gefa til kynna að nýtnihlutfall hans gæti orðið að meðaltali um 50%.

Section
Segment

Mat á umhverfisáhrifum

Vegna stærðar vindlundarins er framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum. Landsvirkjun vinnur nú að verkfræðilegum undirbúningi á umræddu svæði fyrir allt að 200 MW Búrfellslund og hefur lokið mati á umhverfisáhrifum. í samræmi við lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum.

Segment

Tillögur fyrir afmörkun Búrfellslundar

Í mati á umhverfisáhrifum voru settar voru fram þrjár tillögur fyrir afmörkun Búrfellslundar og umhverfisáhrif þeirra metin. Tillögurnar eru eftirfarandi:

Tillaga 1:


Alls um 34 km2 svæði í Rangárþingi ytra. 

Tillaga 2:


Alls um 40 km2 svæði í Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Tillaga 3:


Alls um 33 km2 svæði í Rangárþingi ytra og er staðsett innan marka tillögu 1 og 2.

Segment

Við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er gert ráð fyrir að allt svæðið verði tekið undir framkvæmdir. Hvernig innra skipulag verður innan svæðis mun liggja fyrir á síðari stigum verkefnisins. Endanleg staðsetning ræðst meðal annars af gerð þeirrar vindmyllu sem verður sett upp og eftir að samstarf er hafið á milli framleiðenda og rekstraraðila, byggt á nánari rannsóknum innan þess svæðis.

Mat á umhverfisáhrifum byggir á vindmyllum sem eru 149 m háar, miðað við spaða í efstu stöðu og að vinnslugeta sé um 3,2 MW. Fyrir 200 MW vindlund gerir það alls 63 vindmyllur. Til að leggja mat á hámarksáhrif fyrirhugaðs vindlundar er byggt á mestu dreifingu vindmylla innan svæðis og að vindmyllum sé dreift jafnt um svæðin þannig að myllur eru við alla jaðra svæðanna / ystu mörk.

Mannvit hf. er ráðgjafi við mat á umhverfisáhrifum og Efla verkfræðistofa hf. hefur umsjón með frumhönnun Búrfellslundar. Nokkrar rannsóknir og athuganir voru unnar sérstaklega til að styðja við vinnu við mat á umhverfisáhrifum. Skýrslur með niðurstöðum fylgja með sem viðaukar.

Section
Segment

Umhverfisáhrif - náttúrufar

Náttúrustofa Norðausturlands sá um ítarlega rannsókn á fuglalífi vegna mats á umhverfisáhrifum Búrfellslundar. Unnin var landslagsgreining. Jarðmyndanir voru kannaðar sérstaklega og Náttúrufræðistofnun Íslands gerði gróðurúttekt.

Section
Segment

Umhverfisáhrif - samfélag 

Lögð var sérstök áhersla á að greina áhrif fyrirhugaðs vindlundar á ásýnd svæðisins. Áhrif á hljóðvist voru metin og þar byggt á hljóðstigsútreikningum. Viðhorf íbúa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Rangárþingi ytra og Ásahreppi til svæðisins voru könnuð. Sjónarmið ferðaþjónustuaðila og ferðamanna til framkvæmdarinnar voru einnig könnuð. Fornleifafræðistofan gerði sérstaka úttekt á fornminjum á svæðinu.

Section
Segment

Niðurstöður

Niðurstöður mats á umhverfisáhrifum sýna að uppbygging og rekstur vindmylla komi til með að hafa jákvæð áhrif á sveitarfélög á svæðinu þar sem atvinnutækifæri skapast og tekjur aukast. Niðurstöður sýna jafnframt að helstu neikvæðu umhverfisáhrif fyrirhugaðs Búrfellslundar verði áhrif á ásýnd. Þau áhrif tengjast beint áhrifum á landslag, nærsamfélag, ferðaþjónustu og ferðamenn. Áhrif á hljóðvist, jarðmyndanir, gróður og fugla eru talin verða óveruleg.

Section
Segment

Kynning, samráð og ítarefni

Landsvirkjun lagði fram frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar í september 2015 og voru niðurstöður kynntar almenningi og umsagnaraðilum í kjölfarið. Við tók sex vikna tímabil þar sem hægt var að koma á framfæri athugasemdum til Skipulagsstofnunar. Gerð er grein fyrir umsögnum og athugasemdum í matsskýrslu. Einnig má nálgast umsagnir og athugasemdir í heild sinni hér á vefnum sem og annað ítarefni tengt verkefninu. Endanlegri matsskýrslu var skilað til Skipulagsstofnunar í mars 2016.

Segment
Segment

Nánari upplýsingar

Varðandi frekari upplýsingar um verkefnið má hafa samband við Landsvirkjun hér.

Section
Segment

Matsskýrsla Búrfellslundar

Hér má sækja matsskýrsla Búrfellslundar í heild sinni á Acrobat formi (Pdf)

Matsskýrsla

186 MB PDF